Sveinn Kjarval á Hönnunarsafni Íslands.

Núna stendur yfir sýning á hönnunarstarfi föður míns Sveins Kjarval í Hönnunarsafni Íslands. Ánægjulegt að honum sé sýnd þessi virðing á hundrað ára afmæli sínu eftir að vera hrakinn úr landi í lifanda lífi.

Fékk þessa grein ekki birta í Morgunblaðinu og ekki hollt sálarlífinu að reyna að komast framhjá íslenskum blaðamönnum, hliðvörðum íslenskrar þjóðfélagsumræðu, þöggunin þeirra leiðarljós:

Í dag erum við þrjú börn pabba af fimm lifandi, Kolbrún á Íslandi, ég í Bandaríkjunum og María í Danmörk.  Það var haft samband við mig frá Hönnunarsafni Íslands vegna þessarar sýningar en ég tek ekki þátt í neinu á Íslandi sem kemur að fjölskyldu minni. Ætla ekki í neina slagi við systur mínar og þær gera sem þær vilja, en skrifa bara ekki undir neitt eða samþykki.

Fannst samt rétt að ég segði þeim á Hönnunarsafninu hvers vegna, að það þyrfti segja rétt frá erfðamáli fjölskyldu minnar og hvað gerðist. Þau gætu svo túlkað það eins og þau vildu, þyrfti aðeins að vera rétt og sannleikur, að ég tæki ekki þátt í þessari þöggun sem er á Íslandi og hefur verið í áratugi um fjölskyldu mína. Mér var svo sendur sá hluti Tímalínunnar á sýningunni sem fjallar um þennan tíma þegar foreldrar okkar flýja land:

1970 Sveinn Kjarval og eiginkona hans ásamt tveimur yngstu börnunum flytja búferlum til Danmerkur og setjast að á Norður- Jótlandi. Sveinn hafði tekið ástfóstri við  Ísland en gat ekki hugsað sér að búa þar áfram eftir umdeilt mál þegar fjöldi verka úr vinnustofu föður hans, Jóhannesar S. Kjarval listmálara, voru fjarlægð án vitundar fjölskyldunnar og komið fyrir til varðveislu hjá Reykjavíkurborg. Þetta atvik átti sér stað árið 1968 og reyndist Sveini og fjölskyldu mikið áfall.  

Vandamálið bara að þetta er ekki rétt, vísvitandi sögufölsun og þöggun, sérstaklega eftir að ég benti þeim á það. Virkilega skammarlegt að stjórnendur Hönnusafnsins ætla að taka þátt í þessari þöggun. Þykjast vera að sýna föður mínum virðingu en í raun að níðast á minningu hans og fjölskyldu minnar með því að fara ekki rétt með staðreyndir, jafnvel eftir að þeim var bent á þetta væri ekki rétt.

Á vefsíðu Kjarvalsstaða stendur að afi Kjarval hafi ánafnað Reykjavíkurborg eignir sínar. Rétt að Reykjavíkurborg er með þýfið á Kjarvalsstöðum, en ekkert til frá afa um að hann hafi ánafnað Reykjavíkurborg eitt eða neitt, aðeins meintur munnlegur leynilegur gjafagerningur án vitundar barna hans örfáum vikum áður en að afi er sviptur sjálfræði og lokaður inná Geðdeild Borgarspítalans þar sem hann var til dauðadags, ekkert skriflegt til frá afa, ekkert!

.Árið 1968 er Kjarval orðinn dýrlingur í lifanda lífi á Íslandi, fáir í dag skilja hvað hann var þjóðinni kær á þessum tíma. Ráðamenn í kringum hann til að vera í ljómanum og allt reynt til að einangra afa frá fjölskyldu sinni. Orðin árátta og hafði verið í mörg ár. Hræðsla að því er virðist að við fjölskyldan stælum afa. Kannski eitthvað að gera með að amma Tove var dönsk, ekki veit ég, en árátta var það.

Við í fjölskyldunni sem bjuggum á Íslandi vorum svo neydd til þess að taka þátt í þessu með því að fara með veggjum. Ég fékk fékk nafnið Ingimundur Kjarval sem barn og réð engu þar um, nafn sem fylgdi mér svo út í þjóðfélagið.

Veit ekki hvernig áhrif það hafði á systkini mín að bera þetta nafn, önnur áhrif á kvenfólk kannski, en ég veit að ein systir mín íhugaði á tímabili að hætta að nota ættarnafnið, óvildin bara of mikil.

Vil minna á að ég er eini karlmaðurinn eftir í fjölskyldunni, bæði faðir minn og bróðir fóru langt fyrir aldur fram og mín trú að það hafi bara verið þeim of erfitt að bera þessa arfleið í þjóðfélagi sem vildi ekki vita af okkur.

Betra að beygja sig en brotna og kannski að kvenfólk sætti sig betur við það en stundum er ekkert val.

Þegar ég er 13 ára fer ég í nýjan skóla eins og oft áður vegna húsnæðisvandræða foreldra okkar. Skrái mig sem Ingimund Sveinsson, líklegast haldið að þá fengi ég að vera ég.

Þetta kemst svo upp eftir nokkra daga og vekur athygli í skólanum. Ég er svo illa eineltur í þessum skóla og sannfærður í dag að það hafi mest verið vegna þessa nafns, óvildin í garð okkar allstaðar í þjóðfélaginu. Ef að ég segði að lögin um ættarnöfn hafi verið sett fjölskyldu minni beint til höfuðs, er ég bara ekkert svo viss um að það sé rugl í mér.

Ég er sannfærður um að 5 Hæstaréttardómarar frömdu þetta grófa dómsmorð í erfðamáli fjölskyldu minnar blindaðir af þessari óvild. Við fjölskyldan áttum ekki að vera til og stór hluti Íslendinga með sterkar tilfinningar um það sem kemur fram í furðulegustu myndum.

Og ef að þið trúið mér ekki, vil ég benda á að það er engin tilviljun að afi var settur á gjaldmiðil þjóðarinnar, á frímerkjum, að málverk eftir hann er keyrt til Keflavíkur til þess að reyna að setja virðingarblæ á fund Forsætisráðherra við varaforseta Bandaríkjanna og að Forseti Íslands stendur fyrir framan málverk eftir afa þegar hann ávarpar þjóðina. Þetta er arfleið íslensku þjóðarinnar þó að sumir vilji gleyma henni í dag, saga sem margir í dag skilja ekki.

Þegar afi lést voru áætlanir um að jarðsetja hann á Þingvöllum, þá annar Íslendingurinn þar. Samkvæmt mínum heimildum ekki gert vegna þess að fjölskyldan hefði sett sig upp á móti því, eitthvað sem ég veit ekkert um, aldrei heyrt það innan fjölskyldunnar.

Ég segi stundum, að afi hafi verið einn þeirra sem gaf Íslendingum sjálfsöryggi til þess að verða sjálfstæð þjóð þegar tækifærið kom, kannski djúpt tekið í árina en ekki fleipur í mínum huga.

Hér er svo atburðarrásin í kringum brottför foreldra minna þegar þau flúðu Ísland, snýst um árið 1968.

Þá er Alfreð Guðmundsson, einskonar vinur afa frá því að Alfreð var dyravörður í Nýabíói og hleypti honum ókeypis inn ef að það var pláss, orðinn nærri opinber uppápassari Kjarvals. Alfreð í fullu starfi hjá Reykjavíkurborg en séð í gegnum að starf hans var að hluta til orðið að hugsa um afa.

Þetta sumar er haldin sýning á eldri verkum Kjarvals (afi hættur að mála) í þá Listamannaskálanum við Austurvöll og ¼ þjóðarinnar kemur á sýninguna. Pabbi eina barn hans á Íslandi og vinnur að þessari sýningu með öðrum.

Happdrætti gert um eitt málverkið og ágóðinn fer til byggingar nýs Listamannaskála í Klambratúni þar sem Kjarvalsstaðir eru í dag.

Mikið fé safnaðist, lögmaður fjölskyldunnar umreiknaði þetta í huganum, mundi að faðir hans keypti nýjan Land Rover um þetta leiti og samsvaraði fjórum þannig.

Atburðarásin heldur svo áfram út árið og verður að “fullkomnu óveðri” sem brýtur bæði pabba og afa, pabbi brotnar seint um sumarið og afi upp úr áramótum. Úr frásögn mömmu í vitnatöku:

Guðrún telur að Sveinn Kjarval eiginmaður sinn hafi verið veikur um nokkurt skeið árið 1968 og árin þar á undan. Kveður að Sveinn hafi veikst alvarlega um mitt ár 1966 og hafi hann átt við veikindi að stríða frá þeim tíma.

Guðrún telur að Sveinn hafi farið haustið 1968 til Danmerkur og dvalið hjá Ásu systur sinni til heilsubótar fram í miðjan desember 1968.

Ekki alveg nákvæmt hjá mömmu, þessi veikindi árin áður sem nærri gengu frá pabba, einhver sýking, sumarið 1968 andlegs eðlis, pabbi brotnaði. Mig minnir jafnvel að mamma hafi sagt að hún hafi sent hann til systur hans á Jótlandi eins og kartöflupoka, einhverstaðar er þau orð í hausnum á mér.

Svo hvers vegna brotnaði pabbi? Kannski að ein skýringin sé hér. Þetta úr Tímanum og svo Morgunblaðinu, frétt af afhendingu málverksins vegna þessa happdrættis.

Í Tímanum fær pabbi að vera til en ekki í Mogganum, klipptur í burt Sovét stæl. Skiptir ekki máli hvort að ljósmyndarinn tók myndina þannig, pabbi klipptur út af þeim sem settu blaðið upp, eða skipun frá ritstjórninni, samsærið allt um lykjandi og allir að taka þátt í því. Nema þá á Tímanum en pabbi var í Framsóknarflokknum á þessum árum.

Þarna er verið fjarlægja son Jóhannesar Kjarvals listmálara, má ekki vera til. Báðar ljósmyndirnar teknar á sama augnabliki, hægt að sjá hvernig haldið er um málverkið í báðum myndunum. Var þetta það sem braut pabba, eða að margt smátt gerði eitt stórt?

Þessi árin á undan hafði pabbi verið að reyna að hugsa um föður sinn og samband þeirra betra þessi síðustu ár en oft áður. Ég man eftir að fara með honum til afa á vinnustofuna fyrir ofan Breiðfjörðs Blikksmiðjuna í Sigtúni 7. Afi með rúm í miðri vinnustofunni, hans verustaður, mesti listamaður þjóðarinnar í raun á götunni.

Húsnæðið óeinangrað steypt rými, einfaldir gluggar meðfram tveimur útveggjum og rör eftir gólfinu með veggjunum, en engir ofnar, kuldakast og afi í öngum sínum vegna kulda. Man að pabbi var að reyna gera eitthvað. Kannski að þetta hafi verið um helgi og skrúfað fyrir hitann í blikksmiðjunni fyrir neðan, man það kannski þannig.

Þegar ég fermdist 1965 kom afi í fermingarveisluna, skalf svo illa vegna einhvers taugasjúkdóms að kaffið skvettist úr kaffibollanum í gólfteppið og bletturinn þar þangað til við forum af landinu.

Þetta sumar 20. júlí fer afi í læknisskoðun og ég með læknaskýrslurnar frá þeirri skoðun með öðrum læknaskýrslum.

Segir meðal annars: Sjúkl. var útskrifaður á eftirfarandi lyfjum: tabl. Artan 2. mg í 3 daga og 2mg x4.. tabl. Stesolid 2,5 mg vespere. Ennfremur emulsio parafíni 15. gr. X2-2.

Ég er á því að þessi lyf hafi svo sturlað afa, hann mjög fljótlega orðið þeim háður og það ástæðan að hann er sviptur sjálfræði seinast í janúar 1969. Bráði af honum samkvæmt læknaskýrslum þegar hann komst undir læknishendur á Geðdeild Borgarspítalans.

Afi á svo að hafa gefið allt sitt munnlega og leynilega án vitneskju barna sinna 7. nóvember 1968, að sjálfsögðu gróft dómsmorð hjá Hæstarétti Íslands að láta þennan þjófnað standa!

Þetta sumar var afi að fara nakinn út á Austurvöll frá Hótel Borg þar sem hann hélt til seinustu árin, hringt í pabba stundum um miðjar nætur. Til lýsingar frá Guðbergi Bergssyni rithöfundi á ástandi afa, en Guðbergur vann þá á Hótel Borg.

En það sem ég held að hafi brotið pabba var þetta hús sem Ríkið byggði fyrir afa á Seltjarnarnesi á næstu lóð við hús foreldra minna, hvernig var staðið að því og faðir okkar troðinn í svaðið af ráðamönnum. Ótrúleg saga sem sem væri erfitt að trúa hefði hún ekki gerst á Íslandi.

Pabbi var hönnuður sem þessi sýning í Hönnunarsafni Íslands er jú um. Mér fannst þess vegna að þessi sýning væri ágætt tækifæri til að segja í tímalínunni hvers vegna foreldrar mínir flúðu land.

Hafði ekkert að gera með að vinnustofa afa var tæmd leynilega þetta haust og meira en 5000 verk tekin (5301 samkvæmt skrá Reykjavíkurborgar) án vitundar barna hans og svo falin á Korpúlfsstöðum í 17 ár eða þangað til pabbi var allur, þá fyrst flutt á Kjarvalsstaði.

Tækifærið notað meðan pabbi er sjúklingur í Danmörk hjá systur sinni að taka þetta úr vinnustofunni. Pabbi var ekki ofan í högum föður síns sem réði sér sjálfur þangað til að hann er lokaður inni á Geðdeild Borgarspítalans.

Pabbi kemur heim frá systur sinni um miðjan desember og við öll fjölskyldan saman þessi jól 1968 og þá ákveðið að flýja land. Þá er afi ennþá út í þjóðfélaginu og fjölskyldan vissi ekki að þessi fjöldi listaverka höfðu verið fjarlægð úr vinnustofunni. Pabbi vildi ekki vera lengur á Íslandi vegna þessa húss.

Nokkrum árum áður voru foreldrar mínir farin að hafa miklar áhyggjur af húsnæðismálum afa. Ef ég man rétt, móðir mín frekar en pabbi. Þannig að hugmyndin varð til um að byggja einfalt timburhús á næstu lóð við þeirra hús á Seltjarnarnesi.

Pabbi hannar þetta hús (ég man eftir að hafa séð teikningarnar), fer með þær til ráðamanna, Gylfa Þ. Gíslasonar þá ráðherra líklegast (minnir að ég hafi frásögn pabba um það á segulbandi).

Málið tekið úr höndum pabba, þá Seðlabankastjóri Jóhannes Nordal á að hafa sagt “maður út í bæ”, þýddi líklegast að hann væri ekki í Sjálfstæðisflokknum, en teikningarnar samt notaðar til hliðsjónar við að teikna það hús sem var svo byggt.

Ég hef ekki getað fundið þessar teikningar pabba, leitað hjá Seðlabankanum, Menntamálaráðuneytinu og annars staðar, en vil bara ekki trúa að þær hafi verið eyðilagðar. Fékk skilaboð frá Hönnunarsafninu að þau hefðu ekki fundið þær heldur.

P7150376 

 

Húsið sem var byggt var hannað upp úr teikningum pabba þó svo að Þorvaldur Þorvaldsson arkitekt hafi neitað því þegar ég spurði hann um það fyrir nokkrum árum. Þetta var ástæðan að pabbi brotnar og við flýjum landið að mínu viti.

Til veiðihús í Hrútafirði sem pabbi hannaði og byggði, allir sem sjá það hús skilja um leið að húsið á Seltjarnarnesi er hannað beint upp úr því veiðihúsi.

Veidihus front I

Mamma sagði að pabbi hefði verið heima, séð bílalest koma að þessu húsi og ráðamenn að sýna afa húsið án vitundar pabba, honum svo mikið áfall að hann hefði skriðið upp í rúm og legið þar krepptur í hnút.

Allt í lagi, þið Íslendingar getið falið ykkur á bak við dómsmorð Hæstaréttar þangað til að því verður hnekkt og notið þýfisins á meðan. Farið með börn ykkar á Kjarvalsstaði og verið montin, en það er ekki í lagi að þið falsið söguna og þaggið. Líka þið á Hönnunarsafni Íslands, gengur bara ekki upp.

En eins og það er, Hönnunarsafnið mun komast upp með þetta og engin ykkar mótmæla. Ég vildi svo trúa því að aðeins elítan á Íslandi vilji ekki réttlæti til handa fjölskyldunni. En lái mér hver sem er ef að ég er farin að efast, finnist að öll þjóðin standi á bak við þennan þjófnað, staðreynd að engin ykkar mótmælir þessu dómsmorði opinberlega!

Þið vitið öll á Íslandi sem eigið að vita að þetta var gróft dómsmorð í Hæstarétti Íslands, en þegið öll sem ein, ráðamenn, lögmenn, þið öll. Reiknið líklegast með því að ef að þið þegið og hundsið þetta nógu lengi muni ég gefast upp og þýfið verða ykkar, hrein og klár siðblinda og siðleysi sem þið öll takið þátt í frá mér séð.

Þegar stóra Kjarvalsbókin var gerð, var þessi sama þöggun og sögufölsun í gangi, viðtöl við fjölskyldumeðlimi en þeim svo snúið á hvol og þaggað, tildæmis ekki eitt orð um að þetta var tekið úr vinnustofu afa.

Þess vegna var það rétt ákvörðum hjá pabba að neita að hafa nokkur samskipti við Indriða G. Þorsteinsson þegar hann skrifaði opinbera ævisögu afa, á launum hjá því opinbera í mörg ár við það verk. Hvergi minnst á þetta rán í ævisögunni, sleppt, þöggun enn og aftur . Eins og ég segi, systur mínar gera sem þær vilja en þær ættu kannski að hugsa sinn gang.

Og þetta í lokin til gamans kannski. Þegar ég er heima fer ég stundum í peningavélina í Landsbankanum í Austurstræti til þess að taka út fyrir kaffi. Vélin þakkar svo einhverjum Ingimundi Sveinssyni fyrir viðskiptin en ekki mér. Reikna með að þegar ég var skýrður hafi ættarnafnið verið ólöglegt og ég þess vegna Ingimundur Sveinsson í þjóðskránni. Heldur svona kaldar kveðjur finnst mér ég kominn langt að.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ingimundur Sveinsson Kjarval.

Bestu þökk fyrir þennan
nákvæma og rækilega pistil þinn
sem svo sannarlega er studdur
efnislegum gögnum.

Flest í pistlinum er nýtt fyrir mér
og ég held að almenningur hafi almennt ekki
gert sér grein fyrir því sem þú nefnir.

Fyrir mér var það svo að þar færi listamaður
sem bæri höfuð og herðar yfir samtíð sína
jafnt þó litið væri til fyrri alda.

Ástæða þess að ég skrifa þér eru tilvitnuð orð
úr gögnum máls sem þú hefur sett fram:

"...hægt að halda uppi hann allskynsamlegum samræðum...".

Í málvitund þeirra sem lesið hafa fornsögurnar
er merking orðsins "allskynsamlegur" sú sama og ef
sagt hefði verið afar, mjög eða einkar skynsamlegum.

Það er ekki fyrr en á ofanverðri 20. öld að forskeytið
all- fær merkinguna: sæmilegur, heldur, nokkuð.

Orðið allgóður í nútímamáli merkir: sæmilegur.

Telja verður ólíklegt að menntamenn fyrri tíðar
hafi ekki verið handgengnir fornsögunum og þeim
fyrri merking ljós.

Rak augun í þetta og datt í hug að skrifa þér
þessar línur af því tilefni.

Þetta stenst alla skoðun og þarfnast ekki frekari
skýringa.

Þakka þér, Ingimundur Sveinsson Kjarval, enn og aftur
fyrir greinagóða útlistun máls og gögn öll sem með fylgja.

Kv.

Húsari. (IP-tala skráð) 14.12.2019 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband