Réttarmorð í Hæstarétti Íslands.

Ég var svona hálfpartinn að vona að einhver nefndur í þessari grein myndi stefna mér, hægt að mæta í rétti og ræða innihald greinarinnar. Ég birti hana í DV, setti á "Facebook" og aðra staði en engin stefnt mér ennþá. En hér er hún:

 Ingimundur Kjarval

 

Réttarmorð í Hæstarétti Íslands.

 

Til Dómarafélags Íslands.

 

Ég kæri hér með til hvers þess aðila sem ber að fjalla um þessa kæru, réttarmorð (miscarriage of justice) vegna máls E-2831/2005 fyrir Héraðsdómi og síðan 306/2007 fyrir Hæstarétti “Dánarbú Jóhannesar Sveinssonar Kjarval” sem fór síðan til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem því var vísað frá af einum dómara án rökstuðnings.

 

 Ég kæri Hæstaréttardómaranna: Ingibjörgu Benediktsdóttur, Gunnlaug Claessen, Pál Hreinsson. Hrafn Bragason og Stefán Már Stefánsson (ekki öll Hæstaréttardómarar en dæmdu í þessu máli í Hæstarétti) fyrir réttarmorð (miscarriage of justice).

 

Ég vil líka nefna Héraðsdómarann: Atla V. Magnússon sem dæmdi í málinu í Héraðsdómi og Mannréttindadómarann Päivi Hirvelä sem vísaði málinu frá án þess að rökstyðja frávísunina eða á hvaða forsendum það var gert. Meira um það seinna.

 

Ég veit ekki hvar ég á að kæra þessa málsmeðferð, en Dómarafélag Íslands er meðlimur að alþjóðlegum dómarafélögum og von mín að þar verði kæran tekin alvarlega, ef ekki í núna þá í framtíðinni.

                  Viðurkenndar staðreyndir málsins.

Viðurkennt er af öllum að vinnustofa afa míns Jóhannesar Kjarval listmálara var tæmd leynilega af Reykjavíkurborg, tveimur mánuðum áður en að Kjarval var sviptur sjálfræði og lokaður inni á geðspítala til dauðadags. Einnig er viðurkennt af öllum að engin skjöl voru gerð um þennan atburð þegar hann gerðist haustið 1968, nema stutt bréf sem afa mínum var afhent af starfsmanni Reykjavíkurborgar nokkrum dögum áður en hann var sviptur sjálfræði (ekkert í þessu bréfi um gjöf) og til listi frá þessum tíma eftir sama starfsmann sem skráir tildæmis tóma sígarettupakka en ekki meira en 5000 listaverk sem voru tekin og falin í 17 ár Korpúlfstöðum án vitneskju fjölskyldu minnar.

            Vitað á Íslandi að þetta var réttarmorð.

Ég hef ekki hitt einn Íslending sem telur það rétt að gamalmenni eigi að geta gefið aleigu sína munnlega og leynilega, án hlutlausra vitna og án samráðs við fjölskyldu sína, örfáum vikum áður en viðkomandi er sviftur sjálfræði og lokaður inn á geðspítala. Þessi dómur stríðir gegn réttarvitund allra sem þekkja málsatvik. Svona Hæstaréttardómur er fordæmisgefandi og þar með búið að lögleiða rán á gamalmennum á Íslandi.

 

Ég er fullviss að allir sem þekkja þetta mál, vita að réttarmorð var framið í Héraðsdómi Reykjavíkur og sérstaklega í Hæstarétti Íslands, bara að mörgum á Íslandi finnst að í þessu tilfelli sé nauðsyn að brjóta lögin, nauðsyn að ræna fjölskyldu mína vegna þess að það var ekki hægt að láta börn Kjarvals erfa föður sinn, að þjóðin yrði að eiga æviverk hans. Ég bið þann sem les þetta að hafa það í huga meðan hann les það sem kemur á eftir.

                Hversvegna þetta var réttarmorð.

Réttarmorðið snýst mest um aðild Guðmundar Alfreðssonar að málinu, þó margt fleira  geri báða dómanna að réttarmorðum. Í báðum dómunum er Guðmundur Alfreðsson gerður að lykilvitni og dagbókarbrot hans gert að aðalsönnunargagni málsins, að dagbók hans sanni að Kjarval hafi gefið ævistarf sitt til Reykjavíkurborgar.

 

Fyrst um tengingu Guðmundar við málið. Guðmundur Alfreðsson er, þegar þetta er skrifað, lagaprófessor við Raoul Wallenberg mannréttinda stofnunina í Lundi í Svíþjóð, giftur dómaranum Inetu Ziemele við Mannréttindadóminn í Brussel. Guðmundur er sonur Alfreðs Guðmundssonar sem var gerandinn í koma innihaldi vinnustofu afa til Reykjavíkurborgar. Alfreð var síðan gerður forstöðumaður safnsins (Kjarvalsstaða) þar sem þau meira en 5000 listaverk úr vinnustofunni eru og eingöngu þess vegna að hann fékk þá stöðu,

 

Alfreð Guðmundsson var í kringum afa í áratugi, í fjölskyldu minni var honum helst líkt við persónuna Uriah Heep í skáldsögunni “David Cooperfield” eftir Dickens. Alfreð var hataður af foreldrum mínum alla tíð, sagt að Alfreð væri að reyna að koma sér í sonarstað hjá afa. Móðir mín sagði mér að afi og Alfreð hefðu kynnst fyrir seinni heimsstyrjöldina, Alfreð þá dyravörður í Nýjabíói við Lækjargötu og hleypt afa inn ókeypis eftir að myndin var byrjuð ef salurinn var ekki fullsetinn. Afi bjó þá í miðborginni við erfiðan fjárhag, talinn frægasti Íslendingurinn þá lifandi, en átti samt erfitt með að sjá sér farboða.

 

Þetta er í bók um Kjarval gefna út fyrir nokkrum árum. Á bls. 594, haft eftir systur minni og gerist einhvern tímann eftir 1960: “Fjölskylda mín flutti oft meðan við vorum börn og meðal annars bjuggum við um tíma í yndislegri íbúð í Laugarneshverfi. Þangað kom afi til okkar á aðfangadagskvöld og ég man að það var yndislega fallegt veður með jólasnjó. Afi var afslappaður, settist í stóra stólinn hans pabba úti í horni og allt var svo jólalegt. Afi sat þarna og allt í einu myndaðist einhver fjölskyldustemning, hlý og góð. Þá byrjar flautið úti á götu – á aðfangadagskvöld, alveg kyrrð í götunni, allir að halda jól, en bara flautað og flautað og flautað fyrir utan húsið okkar. Þá var Alfreð að ná í afa og hætti ekki fyrr en afi fór með honum. Hann sagði að hann ætlaði að vera hjá okkur á aðfangadagskvöld. Þetta var erfitt.” Margar svona sögur í fjölskyldunni.

 

Eitt er víst, Alferð hafði enga menntun, starfsreynslu eða hæfileika til þess að réttlæta þá stöðu sem hann svo fékk sem forstöðumaður Kjarvalsstaða, nema auðvitað að hann var tryggur Sjálfstæðisflokksmaður. Ég gæti sagt margt um Alfreð Guðmundsson en sleppi því, hefur lítið að gera með réttarmorðið sem var framið. Ég get þó sagt að það var skrýtin tími á Kjarvalsstöðum meðan Alfreð var forstöðumaður safnsins. Þá sögu geta aðrir sagt og eiga að segja réttlætisins vegna. Þögnin um Alfreð er svo hluti af samsærinu gegn fjölskyldu minni, margir á Íslandi sem vita vel hvernig samband afa og Alfreðs var og hvernig Alfreð varð forstöðumaður Kjarvalsstaða en kjósa að þegja.

 

Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur sagði þetta um Alfreð við skýrslutöku í Héraðsdómi, Þóra vann á safninu: “Hann var ákaflega sérkennilegur maður Alfreð. Hann var mjög dulur og ef ég ætti að lýsa honum mundi ég segja að húsbóndahollusta hefði verið hans sterkasta persónueinkenni”. Það var meira sem Þóra sagði ekki, annara að segja frá því.

 

 Úr skýrslutöku Aðalsteins Ingólfssonar listfræðings sem einnig vann á safninu: lögmaður: “Miðað við þá afstöðu sem fram kom hjá Alfreð Guðmundssyni til þessara mála sem tengdust þá Jóhannesi Kjarval telur þú að það sé hægt að leggja grundvallar fullyrðingu hans um eignarhald borgarinnar á munum sem stafa frá Kjarval? Aðalsteinn: Ég hefði ríka tilhneigingu til að vefengja svoleiðis yfirlýsingu miðað við yfirlýsingar hans í minni tíð og framkomu bæði við mig og aðra. Ég tæki það með miklum fyrirvörum.”

 

Mjög varlega sagt, miklu meira sem kemur ekki fram. Þegar Þóra talar um húsbóndahollustu er það við Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson. Davíð var í hússtjórn Kjarvalsstaða, svo borgarstjóri Reykjavíkurborgar árið 1982 og síðan Forsætisráðherra.

 

Á Kjarvalsstöðum logaði svo allt í kringum Davíð Oddsson eins og allan hans stjórnmálaferil, Davíð beygði allt og alla undir sitt vald og hafði tildæmis mikil afskipti af sýningunni á Kjarvalsstöðum vegna 100 ára afmælis afa árið 1985, Davíð þá borgarstjóri. Þá voru meðal annars sýnd bréf frá Ásu, þá lifandi dóttur Kjarvals til föður síns án samþykkis hennar, bréf sem voru í hlutunum sem Reykjavíkurborg tók úr vinnustofunni. Eða eins og Davíð sagði þá í tilefni þessarar sýningar: “Reykjavíkurborg á Kjarval.”

 

Réttarmorðið er að Guðmundur Alfreðsson er svo gerður að lykilvitninu sem á að sanna að afi minn hafi gefið allt sitt munnlega og leynilega, þó að Guðmundur sé sonur Alfreðs.

 

Svo er líka að frásögn Guðmundar er ekki söm í gegnum árin. Meint aðalsönnunargagn um að þessi gjafagerningur eigi að hafa gerst, er dagbókarbrot Guðmundar sem á að vera frá árinu1968, en kom fyrst fram áratug eftir meintan atburð þegar Baldur Guðlaugsson fyrrverandi lögmaður rannsakaði og gerði skýrslu um málið.

 

Frásögnin í dagbókinni segir ekkert um að Guðmundur hafi verið viðstaddur, aðeins að afi eigi að hafa gefið einhverja kassa með dóti og nokkra tugi teikninga, ekkert í dagbókarfærslunni um meira en 5000 listaverk sem voru tekin leynilega úr vinnustofunni.

 

Þegar réttarhaldið stóð yfir, vildi ég að dagbókin yrði skoðuð af rithandarsérfræðingi en mér neitað, lögmaður fjölskyldunnar sagði að það myndi veikja málstað fjölskyldunnar.

 

Mín skoðun að bæði lögmenn og dómarar hafi verndað Guðmund, bæði vegna stöðu hans, Guðmundur einn af þeim, og að dómarar vildu að meintur gjafagerningur yrði gerður löglegur, hluti af samsærinu gegn fjölskyldu minni sem dómararnir tóku svo þátt í með því að gera Guðmund að lykilvitni, að sjálfsögðu gróft réttarmorð! Dagbók manns sem er ekki hlutlaus skiptir ekki máli, réttarmorð að gera dagbókina að sönnunargagni. Það hljóta allir að skilja, siðblinda að setja Guðmund í þessa stöðu!

 

Baldur Guðlaugsson gerði skýrslu um þetta mál árið1982 sem var unnin fyrir fjölskyldu mína. Skýrslan fór þó aðeins til Davíðs Oddssonar þá borgarstjóra en ekki til fjölskyldu minnar þó að Baldri væri borgað fyrir vinnuna af umboðsmanni fjölskyldunnar. Mörgum árum seinna komst bróðir minn svo yfir skýrsluna, hvernig veit ég ekki, en hann vann sem skipulagsfræðingur hjá Reykjavíkurborg í áraraðir.

 

Hvernig þessi skýrsla fór til Davíðs Oddssonar og hvarf er saga út af fyrir sig, bara einn þráðurinn í spillingarvefnum sem umlykur þetta mál . Efst á skýrslunni er handskrifað “Trúnaðarmál 13.4.2022”, hvað það þýðir valdið miklum bollaleggingum, ein kenningin að Reykjavíkurborg hafi leynilegt skjalasafn um þetta mál og að þetta skjal eigi að vera falið til 13. apríl 2022.

 

Í skýrslutöku í Héraðsdómi kom fram að Hjörleifur Kvaran þá lögmaður borgarinnar og Baldur Guðlaugsson höfðu samsæri sín á milli um að halda þessari skýrslu frá lögmanni fjölskyldunnar sem leitaði að skjölum og hafði fengið vitneskju frá bróður mínum að þessi skýrsla væri til. Í mínum huga hefði dómarinn Allan V. Magnússon átt að taka á því þegar það kom fram við réttarhaldið en skautað yfir. Bara eitt atriði af mörgum um hvernig málinu var stýrt svo að sannleikurinn kæmi ekki fram. Í réttarríkjum telst það alvarlegt mál ef aðilar eru gripnir í að fela sönnunargögn. Bæði Baldur, sem gerði skýrsluna og Hjörleifur þá borgarlögmaður, vissu af þessari skýrslu og hvað var í henni, en höfðu með sér samráð um að fela hana.

 

Í þessari skýrslu (gerð 1982) fer Baldur nákvæmlega (mikið mál í skýrslunni) yfir hverjir áttu að hafa verið viðstaddir þennan meinta munnlega og leynilega gjafagerning, fráleitt að hann hefði ekki nefnt Guðmund ef að Guðmundur hefði sagt þá að hann hefði verið viðstaddur, en Baldur segist hafa talað við hann!

 

Baldur sagði í vitnisburði sínum fyrir Héraðsdómi að hann hefði talað við Guðmund árið 1982: “Ja ég fékk þarna aðgang að dagbókarbrotum frá honum þannig að ég á nú ekki von á því að ég hefði getað gert það án þess að hafa rætt við hann”. Þess vegna er fráleitt að trúa Guðmundi, jafnvel þó hann sé lögmaður og lagaprófessor, þegar hann segir áratugum seinna, að hann hafi verið viðstaddur í símaskýrslutöku, en ekki nefnt í dagbókinni eða við Baldur  árið 1982, eitthvað sem niðurstaða dómsins snýst svo um.

 

Í vörn Reykjavíkurborgar fyrir Héraðsdómi var gengið út frá að Guðmundur hafi ekki verið viðstaddur. Úr vörn lögmanns Reykjavíkurborgar: Eina vitnið sem viðstatt var við upphaf fundarins þegar Kjarval gefur yfirlýsingu um gjöfina, var Alferð Guðmundsson og liggur yfirlýsing hans um það sem gerðist á þessum fundi fyrir í málinu sbr. dskj. 25. “ Þessi yfirlýsing Alfreðs var gerð haustið 1982 þegar Baldur Guðlaugsson er að gera skýrsluna.

 

Svo segir í vörn lögmanns borgarinnar: Í bréfi Ólafs, dags. 10. október 1968 sem að sögn stefnanda á að vera 10. nóvember, kemur fram að hann hafi ekki komið í vinnustofu Kjarval fyrr en rétt fyrir 14:30, þegar gerningurinn var yfirstaðinn, sbr. dskj. 16, merkt 18 í skrá stefnanda. Var Ólafur því ekki vitni að því sem fór milli Kjarval og borgarstjóra kl. 14:00 og verður það af leiðandi ekki byggt á því sem hann taldi að gerst hefði rétt áður en hann kom.”

 

Í þessu bréfi Ólafs frænda til föður míns (Sveins Kjarval), eina samtímaheimildin (fyrir utan meinta dagbók Guðmundar) segir ekkert um að Guðmundur hafi verið viðstaddur og farið mjög nákvæmlega yfir það sem gerðist eftir að Ólafur kemur á vinnustofuna og hverjir voru viðstaddir. Ólafur skrifaði þetta bréf sem nákvæma heimild og vissi að það gæti haft lagalegt gildi. Samkvæmt bréfinu var Guðmundur ekki þar.

 

Baldur Guðlaugsson er í fangelsi þegar þetta er skrifað. Þetta í dómi Hæstaréttar um Baldur: Fram kemur meðal annars að lögmaðurinn ræddi við Geir Hallgrímsson, sem þá hafði mörgum árum fyrr látið af starfi borgarstjóra. Hafi Geir sagst vera sannfærður um að um gjöf hafi verið að ræða. Listamanninum hafi verið umhugað um að verk hans og munir dreifðust ekki meira en orðið var og hann því viljað að stefndi eignaðist þá og varðveitti á Kjarvalsstöðum, sem honum hafi verið hjartfólgnir. Hafi Geir einnig talið að listamaðurinn vildi ekki að skýrt yrði frá gjöfinni opinberlega og því ekki einu sinni verið bókað um þetta í fundargerðum borgarráðs því slík gögn væru opinber. Geir Hallgrímsson lést 1990. Með þessari frásögn er hafið yfir vafa hvað viðtakandi munanna fyrir hönd stefnda taldi felast í ráðstöfun listamannsins. Fær hún aukið vægi fyrir það að heimildarmaður um skilning borgarstjórans fyrrverandi var lögmaður, sem erfingjar listamannsins fengu sérstaklega til að gæta hagsmuna sinna í málinu.“

 

Að Baldur Guðlaugsson hafi verið að gæta hagsmuna fjölskyldu minnar er auðvitað rugl, eitthvað sem hann neitaði sjálfur við skýrslutöku í Héraðsdómi:

Lögmaður: Getur þú lýst því verkefni sem þú tókst að þér, var verkið að kanna réttarstöðuna og sækja þann rétt sem erfingjar töldu sig eiga varðandi borgina? Baldur: Það var ekki að undirbúa málsókn eða kröfugerð. Það var í því fólgið að reyna að svona að fá mynd af því svona hvers eðlis þessi ráðstöfun hefði verið sem átti sér stað þarna 1968 ef ég mar rétt sem margt virtist á huldu um nákvæmlega hvernig svona hefði gengið fyrir sig. Ég tók að mér að reyna svona að fá einhvern botn í það. Annað var það nú ekki.

 

Eftir réttarhöldin fann ég í bréfum afa sem eru á Landsbókasafninu , skrif Guðmundar frá því fyrir árið 1968 og svo eftir. Það er ekki vafi í mínum huga að Guðmundur skrifaði dagbókarfærsluna, bara að vissir stafir í færslunni eru skrifaðir eins og hann skrifaði þá seinna, þess vegna full ástæða að rannsaka dagbókina af sérfræðingi, sem hefði átt að gera í upphafi meðan réttarhöldin stóðu yfir. En auðvitað aukaatriði, þessi dagbók hefði aldrei átt að verða sönnunargagn, Guðmundur ekki hlutlaust vitni og þess vegna réttarmorð að gera dagbókarfærsluna að sönnunargagni. Lögmanni fjölskyldunnar vorkunn, hann að reka mál með það fyrir augum að dómarar fari að lögum og dæmi samkvæmt þeim. Að sjálfsögðu rétt hjá lögmanni að þessi dagbókarfærsla átti ekki að skipta máli og þess vegna óþarfi að gera rannsókn á henni.

 

Það eru aðrir hlutir sem gerðu þetta að réttarmorði, Þorvaldur Þorvaldsson gerður að öðru lykilvitni, en hann bar sannanlega ljúgvitni í skýrslutöku um hlutleysi sitt sem vitni. Samkvæmt mínum skilningi hékk dómurinn í Héraðsdómi algjörlega á því að Þorvaldur væri hlutlaust vitni og þess vegna að ég sleppi að kæra Atla V. Magnússon.

Þorvaldur Þorvaldsson var leigubílstjóri sem afi minn notaði í mörg ár. Má segja að þeir hafi nærri verið vinir þó að mikill aldursmunur hafi verið á milli þeirra, en Þorvaldur keyrði afa minn að sjálfsögðu sem leigubílstjóri gegn greiðslu.

 

Í Héraðsdómnum er vitnisburður Þorvaldar notaður sem sönnun þess að afi hefði gefið borginni innihald vinnustofu sinnar og ætlað að gera það. Líka í Hæstaréttardómnum, en án þess að nefna Þorvald á nafn. Eftir Héraðsdóminn kom fram að Þorvaldur hafði sagt ósatt í Héraðsdómi um tengingu sína við Reykjavíkurborg og þá ekki nefndur á nafn í Hæstaréttardómnum, en vitnisburður hans samt notaður.

 

Í dómi Héraðsdóms segir: “Vitnið Þorvaldur Þorvaldsson, áður leigubifreiðarstjóri, skýrði frá því fyrir dómi að eftir að skóflustunga var tekin að byggingunni Kjarvalsstöðum 18. ágúst 1966 hafi Kjarval farið að tala um það að hann ætlaði að gefa Reykjavíkurborg myndir til að eitthvað væri til að sýna á Kjarvalsstöðum og hafi hann sagt að það þýddi lítið að hafa myndlistarhús ef ekkert væri til að sýna og hafi sagst hyggjast gera það. Það hafi verið síðar að hann hafi sagt vitninu  að það væri búið að ákveða það og borgin vildi taka við þessu og síðar einnig að hann hefði afhent og gefið myndir sem færu niður í skjalasafn Reykjavíkur niður í Skúlatún 2…………….”

 

Í Hæstaréttardómnum segir: “Gögn málsins benda eindregið til þess að ákvörðun Jóhannesar Sveinssonar Kjarval um að afhenda stefnda þá muni, sem um ræðir, hafi átt aðdraganda og mótast á nokkrum tíma, einkum eftir að sá síðarnefndi ákvað að reisa listasafn og sýningahús, sem skyldi bera nafn listamannsins. Er einnig fram komið að hann vildi leggja sitt af mörkum til að hlúa að starfsemi þeirrar stofnunar. “

 

Óskhyggja dómara og þess vegna réttarmorð, ekkert til um að þessi meinta gjöf hafi haft aðdraganda nema þá í vitnisburði Þorvaldar. Merkilegt að nafn Þorvaldar er svo fjarlægt í Hæstaréttardómnum, sýnir einbeittan brotavilja dómara að mínum dómi.

 

Þetta er eini vitnisburðurinn um að afi hafi átt að vera búinn að ákveða að gefa borginni eitthvað áður en vinnustofan var tæmd, hefði svo sannarlega verið í dómunum ef það væri til. Það er nefnilega ekkert til frá afa um vilja hans að gefa Reykjavíkurborg nokkurs staðar nema þessi vitnisburður Þorvaldar. Og aftur, þetta er eina meinta heimildin um að afi hafi viljað og talað um að vilja gefa borginni, allir hljóta að skilja að ef eitthvað annað væri til, þá væri það í dómunum!

 

Skrýtið, ef afi (eins og borgin fullyrðir) vildi að þessi meinta gjöf væri svo leynd að engin skjöl voru gerð hjá borginni, hvorki leynd né opinber, að afi væri svo að tala um hana við leigubílsstjóra. Svo er líka og skiptir höfuðmáli, að þegar afi er spurður í viðtali í Ríkisjónvarpið sumarið 1968 um þetta safn og hvort myndir hans eigi að vera í því, að hann neitar því fastlega og ákveðið, afa mikið mál að þetta safn yrði fyrir listmálara almennt en ekki hann.

 

Hvernig passar það við orð Þorvalds: “til að eitthvað væri til að sýna á Kjarvalsstöðum og hafi hann sagt að það þýddi lítið að hafa myndlistarhús ef ekkert væri til að sýna.” Þetta er í beinni mótsögn við það sem afi segir með eigin orðum í viðtali um hlutverk safnsins. Hann segir að hlutverk þess eigi að vera að sýna myndir eftir aðra listmálara og tekur sérstaklega fram að það eigi ekki að vera myndir eftir hann í safninu.

Þetta viðtal er til, Magnús Bjarnfreðsson sem talar við afa.  Það að safninu var svo gefið nafnið Kjarvalsstaðir hafði ekkert með afa að gera, ákvörðun Reykjavíkurborgar og til heimildir um hvernig það gerðist: Kjarval: “Ég reikna með að skálinn verði fyrir almenning, alla sem vilja sýna en ekkert fyrir mig prívat, ég reikna með því. Skálinn á að vera svokallaður Listamannaskáli, menn geti leigt pláss í vissan tíma og margir geti sýnt á mörgum árum, en allsekki fyrir mig persónulega.” Magnús: “nei”. Kjarval: “nei, nei.”  

 

Svo annars staðar í viðtalinu: Kjarval“Maður er hérna í sjálfheldu vegna peningasöfnun fyrir listamannaskála á Klambratúni og ég gerði það fyrir þá að vera þarna við við við við við hérna hm stæðið þar sem þeir hugsuðu sér hugsuðu sér að hafa húsið og svo veit ég ekkert um það meira  hvað þeir fá mikið inn ……….”

 

Kannski hægt að segja að afi sé ruglað gamalmenni í þessu viðtali, sem má vel vera, en ég man eftir honum talandi svona löngu áður en þetta viðtal var tekið og svona sem ég man afa, talandi í skrýtnum setningum.

 

Staðreynd að þetta viðtal er tekið sumarið þegar afi á að hafa gefið allt sitt til Reykjavíkurborgar leynilega og munnlega 7. nóvember um haustið og svo lagður inn á spítala gjörsamlega ruglaður í lok janúar þann vetur. Svo að hvort sem er, að afi var ruglaður þá um sumarið og þá ekki hæfur 7. nóvember, eða skýr og segir að ekkert eigi að vera eftir hann í þessu safni á Klambratúni þá getur það ekki verið skýrara, ekkert til frá honum um vilja hans til þess að gefa innihald vinnustofunnar til borgarinnar nema orð Þorvaldur sem svo sagði sannanlega ósatt í Héraðsdómi.

 

Það er rétt að þetta viðtal kom ekki fram fyrr en eftir Hæstaréttardóminn, en gerir réttarmorðið ekkert minna, vitað að Þorvaldur sagði ekki satt um tengingu sína við Reykjavíkurborg en vitnisburður hans samt notaður í Hæstaréttardómnum þó að nafni hans sé sleppt.

 

Það eru einmitt til heimildir (skýrsla hjá Menntamálaráðuneytinu) um að afi hafi verið tortrygginn, taldi að hið opinbera vildi ná af honum verkum sínum með því að byggja hús sem svo yrði ætlast til þess að hann setti verk sín í. Úr þessari skýrslu,(hún er ekki um Kjarvalsstaði, heldur hús sem átti að byggja fyrir Kjarval á Skólarvörðuholti):

 

En þegar svo var komið að allt var tilbúið til að hefja byggingarframkvæmdir, teikning gerð, lóðin tilbúin, fjárfestingarleyfi fengið og peningar fyrir hendi, þá kom í ljós, að Jóhannes Sv. Kjarval var ekki við því búinn að samþykkja fyrir sitt leiti að umrætt hús yrði byggt handa sér. Einstakir nefndarmenn svo sem Guðbrandur Magnússon og Birgir Thorlacius hafa átt mörg viðtöl við Kjarval um þetta mál og einnig hefur menntamálaráðherra rætt við hann. Af viðtölum þessum hefur greinilega komið í ljós, að Kjarval er þungt í skapi vegna þess að húsbyggingamálið skyldi ekki komast í framkvæmd um sextugsafmæli hans árið 1945 svo sem til var ætlast á sínum tíma. Þegar málið hefur verið rætt við hann, hefur það komið í ljós, að hann telur sig nú um of við aldur til þess að þiggja slíkan bústað og vinnustað, þar sem honum virðist að hann myndi jafnframt þurfa að hafa þarna til sýnis nokkurt safn af listaverkum eftir sig, en hann mun sjálfur eiga fremur lítið af myndum sínum og mun því telja um seinan fyrir sig að koma upp safni málverka sinna í húsinu.”

 

Varlega sagt í skýrslunni en tortryggni afa var ekki nauðhyggja heldur raunveruleikinn, þessi hús sem voru hönnuð fyrir hann af hinu opinbera í gegnum árin en ekki byggð, meira söfn en íverustaður og vinnupláss. Meira að segja yfirlýstur tilgangur þeirra tveggja fyrstu, að þau ættu að verða söfn á myndum hans. Samkvæmt teikningunni af húsinu við Skólavörðuholt, átti að vera viðhafnarinngangur inn í stóra sali á fyrstu hæð en íbúð afa í kjallaranum með gluggum út að götunni, eins og að hann að ætti vera til sýnis líka.

 

Sannleikurinn er að ráðamenn réðu ekki við sig vegna græðgi, hvort sem það var fyrir hönd þeirra sjálfra eða þjóðarinnar og að þeir rændu Kjarval um leið og hann varð hjálparlaus, það eina skýringin á því sem gerðist, Kjarval talinn eign valdamanna eða þjóðarinnar í lifandi lífi og það ástæðan fyrir samsærinu gegn fjölskyldu minni. Við áttum ekki að vera til, erfið lífsreynsla að alast upp hjá þjóð sem vill svo ekki gangast við manni vegna þess að fjölskyldu meðlimur er einn ástkærasti listamaður þjóðarinnar. Afi varð svo peð valdamanna Íslands í ellinni og fjölskylda hans fyrir. Stjórnmálamenn sáu sér hag í að vera í kringum Kjarval vegna þess að hann var þjóðinni kær, hans ljómi lýsti á þá líka.

 

Úr bókinni um Kjarval bls. 593: “Fjölskylda Jóhannesar er sammála um að erfiðast hafi verið hvernig þeim var meinaður aðgangur að honum síðustu árin. “Það voru ákveðnir menn sífellt í kringum hann sem vörðu okkur leiðina að honum” segir Hrafnhildur Tove. “Meira að segja þegar hann lá fyrir dauðanum og ég ætlaði að vera hjá honum fékk ég ekki að komast að honum.” Og María tekur undir þetta: “Mér finnst átakanlegt hvernig hann dó, með alls konar fólki í kringum hann sem var að tala saman, enga fjölskyldu, engan kærleika. En það var erfitt að gera nokkuð, það var tekið fram fyrir hendurnar á okkur.”

 

En valdamenn sáu þetta eitthvað öðruvísi. Úr bók sem Davíð Oddsson þá borgarstjóri, réð Indriða G. Þorsteinsson til þess að skrifa um Kjarval, Indriði á launum fyrir í mörg ár. Pólitískt makk á bak við tjöldin um hvor, Indriði eða Matthías Jóhanessen ættu að skrifa bókina, auðvitað bragð til að koma ritstjóra flokksblaðs á opinber laun . Bls. 315: “Þann 13. apríl 1972 fór Alfreð til hans tímanlega um daginn. Kjarval mókti og sólin skein á rúmið. Alfreð sat á rúmstokknum og hélt í hönd hans. Kjarval tók aðeins þéttar um hönd Alfreðs öðru hverju til að vita hvort hann væri ekki þarna. “Ég hafði aldrei séð mann deyja fyrr,” segir Alfreð. “Hann hætti að anda kannski í tíu eða tuttugu sekúndur. Það var svona erfitt að skilja við.”  Þegar hann hafði verið meðvitundalítill í eina fjóra tíma gaf hann upp öndina. Þá var klukkan 17:55.”

 

Að Þorvaldur Þorvaldsson var gerður að hlutlausu vitni í dómunum er að sjálfsögðu gróft réttarmorð. þetta úr skýrslutöku Jóns Halldórs Gunnarssonar sem var tekin eftir dóminn í Héraðsdómi þegar upplýsingar komnar fram um að Þorvaldur hefði ekki sagt satt í Héraðsdómi. Um Þorvald: “Við erum búnir að vera góðir kunningjar, erum búnir að vinna saman í gegnum veislur hjá borginni, hann var varabílstjóri hjá borgarstjóra (Davíð Oddssyni) oft til að sækja fólk og skila fólki”.

 Úr minningargrein í Morgunblaðinu árið 2007 um Þorvald: “Sjálfstæðismaður var hann, oft hringdi hann og vildi þá tala við manninn minn um  það sem á honum hvíldi í pólitíkinni, í síðustu ferðinni til hans sagðist hann hafa unnið fyrir flokkinn í 50 ár.”  

 Þetta mál er inn á innsta gafli Sjálfstæðisflokksins, tveir formenn flokksins og síðan forsætisráðherrar, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson tengdir því beint og út í hött að gera Þorvald að hlutlausu vitni.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu: “Þá sá ég Þorvald fyrst og síðan mættumst við á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um tugi ára.” Úr annari minningargrein í Morgunblaðinu: Þegar ég var borgarfulltrúi í Reykjavík  1974, kynnist ég fljótlega Þorvaldi Þorvaldssyni bílstjóra. Hann hafði það hlutverk að koma okkur á réttum tíma á hina fjölmörgu fundi, sem maður átti að sækja. Það var gott að ræða við þorvald um ýmis mál vandamál borgarinnar. Hann var einn traustasti sjálfstæðismaður sem ég hef kynnst.”

Þegar Þorvaldur er spurður í Héraðsdómi: “Á þeim tíma sem þú starfaðir sem leigubílstjóri sást þú um einhvern akstur fyrir Reykjavíkurborg eða varst þú með einhverja samninga fyrir Reykjavíkurborg?”  Þorvaldur: “Ekki fremur en öðrum.”

 

 

Svo er líka að Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði ósatt í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti, eitthvað sem er hægt að sanna vegna þess að þess að orðalag hans endaði síðan í dómnum sjálfum en var ekki í skýrslutökunni (ég hef  upptöku af málflutningi Vilhjálms). Í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti, þykist Vilhjálmur lesa beint upp úr skýrslutöku Jóns Halldórs Gunnarssonar fv. Sendibílsstjóra hjá Reykjavíkurborg.

 

Samkvæmt Vilhjálmi hljómar skýrslutakan þannig: “Kom fram þegar þið voruð að vinna þetta í hvaða tilgangi Kjarval var að afhenda Reykjavíkurborg þetta? Já sko hann nefnilega sem mér kom dáldið spánskt fyrir sjónir að hann talaði alltaf við mig og sjálfan sig og mig að hann væri búinn að gefa þetta og hann sagði við skulum gefa þeim þetta, við skulum gefa Þeim þetta, þetta er gott fyrir þá. Spurður: sem sagt í þínum huga var engin vafi á því að Kjarval var að gefa frá hlutum til þess að gefa, að hann notaði orðið gefa. Já sko nefnilega sem kom mér dáldið spánskt fyrir sjónir eða eyru að hann sagði við skulum gefa þeim þetta þó það væri bara rusl.

Í hinni réttu skýrslutöku segir: Lögmaður:“Kom fram þegar þið voruð að vinna þetta í hvaða tilgangi Kjarval var að afhenda Reykjavíkurborg þetta? Jón Halldór: Já sko hann nefnilega sem mér kom dáldið spánskt fyrir eða eyru að hann sagði alltaf við skulum gefa þeim þetta þó að það væri bara rusl. Lögmaður: Og hann talaði um í staðinn fyrir að ætla að gefa, þá sagði hann við? Jón Halldór: Nei hann sagði ekki ég sko hann sagði alltaf við.........................“

 

Í dómi Hæstaréttar segir: “Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms gaf Jón Halldór Gunnarsson skýrslu fyrir dómi, en endurrit hennar hefur verið lagt fyrir Hæstarétt. Hann var áður sendibifreiðarstjóri og kvaðst hafa ekið mikið fyrir stefnda. Um haustið 1968 hafi honum verið falið að aðstoða Jóhannes Sveinsson Kjarval að rýma vinnustofu hans í Sigtúni 7. Lýsti hann því þannig að „þar vorum við saman í hálfan mánuð tæpan frá svona níu á morgnana til fjögur á daginn og hann rétti mér það sem hann vildi losna við og ég setti það niður í kassa og keyrði svo kassana jafnóðum niður í skjalasafn borgarinnar í Skúlatúni 2. Þetta gekk mjög vel hjá okkur samvinnan og hann var léttur og hress ...“. Þegar hann var sérstaklega spurður hvort komið hafi fram meðan hann vann við þetta viðfangsefni í hvaða tilgangi listamaðurinn afhenti stefnda vöruna svaraði vitnið: „Já það kom nú fram sko hann talaði alltaf, hann talaði nú bæði við mig og sjálfan sig á meðan við vorum að þessu og hann sagði alltaf: „Við skulum gefa þeim þetta og við skulum gefa þeim þetta, þetta er gott fyrir þá ... .“ Nei hann sagði ekki ég sko hann sagði alltaf við og eftir því sem á tímann leið þá varð léttara yfir honum það virtist létta yfir honum þegar hann var búinn að hreinsa þarna út ...“.

Framburður vitnisins styður þá málsástæðu stefnda að hann hafi fengið eigur listamannsins að gjöf, en ekkert er fram komið sem veikt getur sönnunargildi framburðar þessa vitnis.”


Út úr hól og óskhyggja dómara, réttar einbeittur brotavilji, að túlka orðatiltækið þegar verið er að vinna við að pakka ofan í kassa, með sendibílstjóra sem vinnur fyrir þiggjanda, “við skulum gefa þeim þetta sem sönnun þess að gamalmenni hafi gefið aleigu sína leynilega og munnlega. Sýnir best á hvað veikum forsendum allur dómurinn er byggður, orð sendibílstjóra um hvað afi sagði þegar verið er að pakka ofan í kassa, gerð að sönnun þess að afi hafi gefið aleigu sína.

 

Yfirmaður sendibílstjórans hjá Reykjavíkurborg sagði svo í skýrslutöku: “Aldrei nokkurn tímann, hvarflaði ekki að nokkrum manni. Ég heyrði aldrei nokkurn mann minnast á það að Kjarval ætlaði að gefa, aldrei.

 

Það er gróft réttarmorð að gera orðatiltæki afa við vinnu sem sönnun þess að hann hafi gefið aleigu sína leynilega og munnlega til Reykjavíkurborgar, sýnir hvað dómarar þurftu að teygja sig langt til þess að fremja þetta réttarmorð.

 

Orðið að gefa þýðir ekki alltaf að gefa til eignar, sértaklega þegar það er notað um þriðja aðila í tali á milli tveggja manna við vinnu, getur þýtt “að láta einhvern hafa”, “láta einhvern fá”. Fyrir utan að Jón Halldór segir sérstaklega að afi hafi alltaf sagt “við”. Jón Halldór gat auðvitað ekki gefið neitt.

 

Í Hæstaréttardómnum segir að Jón Halldór hafi sagt að Kjarval hefði sagt: “þetta er gott fyrir þá”.  ÞAÐ ER EKKI Í SKÝRSLUTÖKUNNI! Vilhjálmur sagði í málflutningi sínum að Jón Halldór hefði sagt að afi hefði sagt “þetta er gott fyrir þá”. Sem sagt, uppspuni Vilhjálms um hvað hefði verið í skýrslutökunni komst í dóm í hæstaréttar!

 

Vilhjálmur sagði líka að Jón Halldór hefði sagt: “hann talaði alltaf við mig og sjálfan sig og mig að hann væri búinn að gefa þetta” , ekki í skýrslutökunni eða dómnum, en ég er á því að það hafi verið í huga dómara þegar þeir dæmdu, þeir heyrt Vilhjálm segja það og haft áhrif á þá. Hæstaréttardómarar hafa engan tíma til að kynna sér málskjöl, eitthvað sem Vilhjálmur vissi. Auðvitað óhæfa að lögmenn komist upp með að ljúga í Hæstarétti og óhæfa að munnlegur málflutningur þeirra er ekki tekin upp fyrir alla að heyra.

 

Margt annað í munnlegum málflutningi Vilhjálms orkaði líka tvímælis, það furðulegasta þegar hann fjallaði um heilsu afa og getu hans til þess að gefa allt sitt til Reykjavíkurborgar. Vilhjálmur vitnaði í viðtal við afa frá vetrinum áður og að afi hefði sagt að hann hefði verið á skíðum í tvo daga. Rétt hjá Vilhjálmi, afi sagði að hann hefði verið á skíðum í tvo daga upp á Sandskeiði, ekki þar með sagt að hann hafi verið skíðum, hefði verið sjón að sjá afa gamla renna sér. Afi var hraustur maður fram eftir aldri en þá var hann farinn að eldast, kominn yfir áttrætt og bjó á Hótel Borg.

 

Afi þjáðist af skjálfta í mörg ár. Ég man að í fermingaveislunni minni nokkrum árum áður, gat hann ekki haldið kaffibolla og kaffið fór yfir allt. Má vel ver að skjálftinn hafi aukist vegna spennu að vera með fjölskyldunni, ekki veit ég. Fyrst greint sem Parkinson veiki en seinna heilabilun. Næst í viðtalinu segir afi frá hesti í Kanada sem stökk yfir girðingu í kuldanum en kom ekki niður hinum megin fyrir en um vorið þegar það þiðnaði, Vilhjálmur sleppti því.

 

Mín skoðun að Vilhjálmur hafi vitað hvað hann var að gera, vitað að Hæstaréttardómarar voru á hans bandi og gleyptu það sem hann sagði í vilja sínum að trúa honum. Hægt að finna það í réttarsalnum, Vilhjálmur teygjandi allt út fyrir alla skynsemi, vitandi að hann hafði ekkert, en dómarar hlustandi af athygli. Annað þegar kom að málflutningi lögmanns fjölskyldunnar, þá mátti finna áhugaleysið og óþolinmóðiðna, eins og dómarar væru illa þjáðir af athyglisbresti, rekið á eftir lögmanni að minnsta kosti einu sinni.

 

Málflutningur borgarinnar Héraðsómi gekk mikið út á að Reykjavík ætti Kjarval og tómt mál að fjölskyldan hefði nokkrar kröfur, hvort sem það væri, að vita hvað var verið tekið úr vinnustofunni, eða að hafa áhyggjur af hvernig það væri varðveitt, kæmi fjölskyldunni hreinlega ekki við.

 

Lögmaður borgarinnar í vörn sinni fyrir Héraðsdómi: Væntanlega sá Kjarval fyrir að börn hans hefðu ekki bolmagn til að búa nægilega vel að gjöfinni og uppfylla þær kvaðir sem slíkri eign fylgja og lúta að dýru sýningar-og geymsluhúsnæði, forvörslu, skráningu og söfnun.”

 

Lögmaður borgarinnar kvað svo fastara að orði í munnlegum málflutningi, ýjaði að því að við fjölskyldan hefðum vanrækt afa og borgin hlaupið í skarðið. Þá fór kurr um réttarsalinn, gekk fram af konunum í fjölskyldunni, sussuðu á lögmanninn svo að lögmaður fjölskyldunnar þurfti að ganga fram til þess að þagga niður í þeim. Við karlmennirnir þögðum. “Væntanlega sá Kjarval”. Þarna var lögmaður borgarinnar hreinlega að segja dómara að Kjarval hefði ekki viljað að börn hans erfðu hann þó ekkert sé til um þann vilja afa.

 

Talandi um varðveislu þess sem tekið var úr vinnustofunni. Í listanum frá árinu 1968, sem skráði tóma sígarettupakka en ekki meira en 5000 listaverk sem voru tekin, voru nákvæmalega skráðir 1124 bókartitlar. Í lista gerður árið 1985 af sama starfsmanni voru bókartitlarnir orðnir 608  og margar dýrmætustu bækurnar horfnar. Í lista sem kom frá Reykjavíkurborg 2004 eru meira en 5000 númer yfir listaverk en öll olíumálverk horfin sem voru nefnd að væru í kössum í listanum frá árinu 1968. Reykjavíkurborg telur ekki að hún þurfi að skýra það á nokkurn hátt, að fjölskyldunni komi það ekki við, þetta eign borgarinnar og hennar að fara með eins og hún vill, að hún þurfi ekki að skýra neitt.

             Staðreyndarvillur í Héraðsdómnum.

Ég vil líka fara yfir það sem gerðist í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þegar dómurinn var birtur voru tvær staðreyndarvillur í honum, á bls, 26 og 27. Ekki prentvillur heldur staðreyndarvillur: Á bls. 26 segir: “Fyrir liggur minnisblað Davíðs Oddssonar þáverandi borgarstjóra um fund er haldinn var 5. ágúst 1968, þar sem mættir voru auk Davíðs, Geir Hallgrímsson, Jón G. Tómasson borgarlögmaður og Alfreð Guðmundsson er þar haft eftir Geir að þessar myndir ásamt fleiri munum, hefðu verið afhentar Geir af Jóhannesi Kjarval hinn 7. nóvember 1968” . Dagatalið rangt, þessi fundur var haldinn árið 1982, sagt í dómnum fundurinn hafi verið sama ár og meint gjöf sem skiptir máli.

 

 Hér má benda á, að í dómnum er aðeins haft eftir Geir það sem Davíð Oddsson segir Geir hafa sagt. Í skýrslu Baldurs er þetta haft eftir Geir þetta sama haust: “Geir Hallgrímsson þá v. Borgarstjóri, segist sannfærður um að gjöf hafi verið að ræða, en man ekki eftir því hvernig þetta bar að.” Ekki staðreyndarvilla en að sjálfsögðu réttarmorð að orð Davíðs í eigin minnisblaði eru gerð þetta mikilvæg í dómsniðurstöðu, en svo sleppt því sem haft er eftir Geir í skýrslu Baldurs.

 

Hin staðreyndarvillan í dómnum er á bls. 27: .......og svo þegar er virt yfirlýsing Alfreðs Guðmundssonar frá 18. september 1968, sem hnígur í sömu átt. Á að vera 1982. Skiptir  máli hvort þessi yfirlýsing var gerð 1868 eða 1982, veikir málstað fjölskyldunnar ef að þessi yfirlýsing Alfreðs hefði verið skrifuð sama ár og meint gjöf en ekki meira en áratug seinna þegar Baldur var fenginn til þess að rannsaka málið og yfirlýsingin eingöngu skrifuð þess vegna.

 

Þegar ég hafði samband við lögmann fjölskyldunnar, (ég sem fann villurnar), hafði hann samband við Héraðsdóm og þessu breytt í kyrrþey án þess að fjölmiðlum væri sagt frá. Ekki að það hefði breytt neinu, fjölmiðlar á Íslandi með í samsærinu gegn fjölskyldu minni.

 

Hvernig er hægt að vita hvenær þessar staðreyndavillur komust í dóminn, voru þær fyrir framan dómara þegar hann dæmdi, eða urðu þær til þegar dómurinn var vélritaður eftir á? Í mínum huga voru þessar staðreyndavillur í dómnum til þess að villa um fyrir fjölmiðlum og þannig þjóðinni, spillingin það mikil í íslenska réttarkerfinu að mínum dómi. Ég veit ekkert um hvernig þær komust í dóminn, en ég veit að það var ekki rétt hvernig þær voru lagaðar, hefði átt að vera formlegt á einhvern hátt.

Frávísun málsins hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Síðast vil ég fara yfir  meðferð málsins við Mannréttindadómstól Evrópu. Þar var málinu vísað frá af einum dómara, Päivi Hirvelä, konu frá Finnlandi. Eiginkona Guðmundar Alfreðssonar, Ineta Ziemele, er einnig dómari við Mannréttindadómstólinn. Hún er frá Lettlandi, nágrannalandi Finnlands og samskipi þessara landa í réttarmálum mjög náin. Bæði að Finnland og Lettland voru undir Rússlandi og réttarkerfi beggja þess vegna þaðan að einhverju leiti og að Lettland hefur notið aðstoðar Finna við uppbyggingu réttarkerfisins eftir sjálfstæðið, ef ég veit rétt.

Ég veit lítið um samskipti Guðmundar Alfreðssonar, Hirvölu og eiginkonu Guðmundar sín á milli eða samskipti þeirra allra við íslenska dómara og lögmenn á Íslandi, en mér skilst að innan Mannréttindadómstólsins séu Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin mikið saman, jafnvel út af fyrir sig í gangi eða álmu, ekki rétt að einn dómari frá Finnlandi hafi vald til þess að vísa málinu frá (sjá meðfylgjandi bréf sem var aldrei svarað af Mannréttindadómnum).

Ég trúi því að spillingin í íslensku réttarkerfi teigi sig til Mannréttindadómstólsins, að Íslendingar þar séu í of miklum tengslum heim og ráði yfir málum sem koma frá Íslandi.

Í þessu sambandi get ég sagt frá atviki. Í eina skiptið sem Guðmundur Alfreðsson var í réttarsal á Íslandi vegna málsins til þess að bera vitni (hann bar líka vitni í gegnum síma), gekk hann upp að dómaranum Allan V. Magnússyni í dómarasæti og heilsaði með handabandi. Ég þóttist heyra á tal þeirra um son Allans sem Guðmundur jafnvel kenndi í Svíþjóð eða umgekkst. Ekki fyrr en hann snéri sér við að hann sá að ég var í salnum. Þá kom fát á Guðmund og hann byrjaði að heilsa öllum með handabandi sem voru ekki margir. Samkvæmt mínum skilningi fannst honum í lagi að ganga upp að dómara og heilsa sem kunningja ef aðeins lögmenn og dómari voru í salnum, stéttin sem fjölskylda í örþjóðfélagi.

 

Mér skilst að fyrirkomulagið, að aðeins einn dómari geti vísað frá máli við Mannréttindadóminn, hafi verið sett á mjög stuttu áður en þetta mál kom fyrir réttinn. Augljóst hvers vegna það er æskilegt að fleiri en einn dómari komi að frávísun, erfiðara að ná til fleiri dómara en eins. Päivi Hirvelä er frá Finnlandi og Guðmundur Alfreðsson laga prófessor við stofnun í Svíþjóð með margskonar tengsl við Finnland.

 

Eiginkona Guðmundar er dómari við mannréttindadómstólinn, kona frá Lettlandi og Hirvala kona frá Finnlandi, hægt að ganga út frá að þessar tvær konur þekki hvora aðra nokkuð vel og að Hirvala viti af eiginmanni Inetu og stöðu hans í þessu máli, hefði átt að gera hana vanhæfa.

Það minnsta, að þegar aðeins einn dómari getur vísað frá máli, að hann hafi engin tengsl við málsaðila og sé frá öðru svæði í Evrópu, sérstaklega þegar einn mikilvægasti málsaðilinn er laga prófessor í mannréttindum og vel þekktur hjá Mannréttindadómstólnum.

Frávísunin sjálf gefur svo engar skýringar hvers vegna málinu er vísað frá, eitthvað sem ég veit ekki hvort er eðlilegt en finnst mjög skrýtið. Mér var sagt af lögmönnum mínum að ég hefði réttmæta kröfu um umfjöllun við Mannréttindadómstólinn og mér gjörsamlega óskiljanlegt að síðan sé hægt að vísa málinu frá án rökstuðnings, ekkert réttlæti í því né eðlileg málsmeðferð samkvæmt mínum skilningi.

 Ég veit ekki hvernig dómarar veljast til einstakra mála, hvorki við Mannréttindadómstólinn né á Íslandi en er mjög tortrygginn, tel möguleika á að Hirvölu hafi verið stýrt að þessu máli.  Ég tel að þetta mál sé allt gegnumsýrt af því að vernda Guðmund, bæði vegna þess að það var vilji til þess að fá vissa útkomu og að Guðmundur er lögmaður og laga prófessor, tengdur Mannréttindadómstólnum í gegnum eiginkonu sína og starf. Mér skilst að Guðmundur sé innanhúsamaður hjá Mannréttindadómum, að vinna hans og fræðistörf séu notuð þar. Ég trúi því að bæði dómarar og lögmenn hafi gert orð Guðmundar rétthærri og veigameiri en ella vegna þess að hann er einn af þeim. Ég hef vissa samúð með Guðmundi Alfreðssyni, hann dregist inn þetta mál sem tengist æsku hans og föður, ekki honum að kenna ef að lögmenn og dómarar gera hann svo að lykilvitni í þessu máli.

                                                   Lokaorð.

Ástæðan að ég sendi þessa kæru sjálfur, er að ég tel ekki að hefðbundnar aðferðir í gegnum lögmann myndu bera árangur á Íslandi, enda fengi ég líklega engan lögmann til þess að hjálpa mér.

 

Allt réttvíst fólk hlýtur að sjá að þessir dómar eru í besta lagi rugl, nákvæmar, refsivert athæfi dómara. Hvernig gengur það upp að dómarar sem hafa vald til þess að refsa öðrum og jafnvel að setja í fangelsi, sleppi svo sjálfir við refsingu þegar þeir fremja svona gróft réttarmorð. Þessir dómar geta ekki staðið eða dómarar komist undan ábirgð á þeim.

 

Ég tel að þið sem vinnið í íslensku réttarkerfi hafi lítilsvirt fjölskyldu mína og haft mig að fífli, lögmenn og dómarar samvirkir. Þið hafið gert líf mitt erfiðara en ella, erfið lífsreynsla að verða fyrir svona spillingu, áfall sem ég mun aldrei komast yfir, gleymum ekki álaginu á fjölskyldu mína í áraraðir.

 

Ég trúði því að dómstólar á Íslandi myndu reyna allt til þess að finna sannleikann og reyna að gera rétt, alltaf tilbúinn að samþykkja það réttlæti, hvað sem það yrði. Kannski einfeldni og barnaskapur, en af sömu ástæðu er ég ekki tilbúinn að láta ykkur komast upp með að eyðileggja íslenskt þjóðfélag með svona réttarmorði.

 

Ég byrjaði á þessum málaferlum vegna réttlætiskenndar og mun halda áfram af sömu ástæðu, verður að láta þá dómara sem frömdu réttarmorðið, taka ábirgð á því. Eftir þennan dóm sem 5 Hæstaréttardómarar standa að, er Ísland ekki lengur réttarríki í mínum huga.

 

Má vel vera að þessi kæra sé ekki formlega rétt, en hvað er til ráða þegar dómsvaldið sjálft í landinu er bilað og spillingin teygir sig jafnvel til Mannréttindadómstólsins. Má vera nauðhyggja í mér, en ég þykist vita að ég geti ekki fengið lögmann til þess að gera þessa kæru með mér, að íslenskir lögmenn, samanber nafnlausa bréfið um að dómarar hygli sumum lögmönnum en ekki öðrum, vilji ekki neikvæða athygli dómara.

 

Í gegnum árin hef ég undrast þögnina á Íslandi um þetta mál, en hún er jú ekkert annað en viðurkenning að einn ástkærasti listamaður þjóðarinnar var rændur í ellinni.

 

Virðingarfyllst. Ingimundur Kjarval

 

1) Bréfið til Mannréttinda dómstólsins http://kjarval-skjol.blogspot.com/2013/03/bref-til-european-court-of-human-rights.html

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband